Hafrannsóknastofnun, Háskóli Íslands og HB Grandi hafa komið að verkefninu sem var styrkt af Rannís. Stefnt er jafnt á innanlandsmarkað sem erlendan markað með kerfið en það hefur verið til prófunar í Akurey RE, ísfisktogara HB Granda, undanfarna níu mánuði.
Það má því segja að meðgöngunni sé lokið og framundan er að fínpússa framsetningu gagna í samvinnu við notendur kerfisins. Steingrímur Gunnarsson, sölustjóri hjá Trackwell, segir að um sé að ræða nýtt upplýsingakerfi fyrir togskip.
Naust Marine hannar og selur togvindur og hefur um árabil þróað og selt ATW togvindustýringar (Automatic Trawl Winch system). Sá búnaður stýrir legu trollsins auk þess sem hann heldur utan um og mælir notkun togvíra og álag á þá en gegnum veiðarfæraskynjara fær kerfið upplýsingar um ástand veiðarfærisins í sjó á hverjum tíma. Margir viðskiptavinir hafa sýnt mikinn áhuga á að skrá þessi gögn og tengja við upplýsingar um afla og úthald. Hugbúnaðarfyrirtækið Trackwell hefur þróað og selt lausnir undir nafninu Hafsýn sem m.a. skráir og miðlar upplýsingum til útgerða um afla, úthald og búnað. Fyrirtækin sáu því mikla möguleika í því að vinna saman að lausn sem uppfyllti þarfir viðskiptavina og myndi auka sölumöguleika beggja aðila.
Safnar og tengir saman upplýsingar
„Mikil endurnýjun hefur verið á togaraflota landsmanna undanfarið og mikið verið fjárfest í skipum og búnaði þeim tengdum. Því er mikilvægt fyrir útgerðir að fylgjast vel með notkun og beitingu búnaðarins við veiðar ásamt þeim aflaverðmætum sem skilað er í land. Kerfið safnar saman upplýsingum frá togvindukerfi og veiðarfæranemum og tengir við gögn úr afladagbók, frá umhverfsskynjurum og orkunotkun. Skipstjórnendur fá með þessu greinargott yfirlit um notkun búnaðarins og einfalt aðgengi að upplýsingum um fyrri veiðiferðir,“ segir Steingrímur.
Kerfið kallast Optigear og segir Fjóla Kristín Traustadóttir, kerfisstjóri í þróunardeild Naust Marine, það erlenda útfærslu á hugtakinu bestun veiðiaðferða. „Kerfið býður upp á samanburð veiðiferða, veiðisvæða, veiðarfæra og skipa með það að leiðarljósi að standa sem allra best að veiðunum.“
Steingrímur segir að kerfið nýtist skipstjórum vel því þegar þeir koma um borð hafi þeir allar upplýsingar um fyrri veiðiferðir. Skipstjóri geti til dæmis flett því upp í kerfinu ef sérstaklega góð köst voru í fyrri veiðiferð hvar kastað var, dýpið, hver sjávarhitinn var, hraði skipsins, hvernig átak var á vindur og spil og skverun á trollhlerum svo fátt eitt sé nefnt.
Líkur á óhöppum minnkaðar
Fjóla Kristín segir kerfið skila upplýsingum um notkun veiðarfæra sem nýtist skipstjórnarmönnum til betri ákvarðanatöku fyrir markvissari sóknarstýringu. Þannig sé hægt að fylgjast með kostnaði við veiðar, orkunotkun og úthaldi með nákvæmu niðurbroti á siglingu, kasti, togi og hífingu. Með samtengingu við afla og verðmæti sjáist afrakstur veiðanna jafnóðum. Kerfið auðveldi því stjórnendum að greina frávik og grípa strax til ráðstafana. Til lengri tíma sé einnig hægt að bera saman orkunotkun, beitingu veiðarfæra og afrakstur veiða á milli árstíma, hafsvæða, skipa og áhafna.
Steingrímur bendir á að komi upp óhöpp liggi fyrir ítarlegar upplýsingar um beitingu búnaðarins þegar óhappið átti sér stað. Óhöpp af þessu tagi geti til dæmis verið botnfesta, slitinn vír eða að búnaður flækist. Þetta geti oft á tíðum verið mjög kostnaðarsamir þættir sem mikilvægt er að forðast. Aðgengi að þeim upplýsingum sem kerfið miðlar auðveldi útgerðum að gera ráðstafanir til að minnka líkur á því að slík atvik endurtaki sig. Einnig sé mikilvægt að fylgjast með notkun á búnaði með tilliti til slits. Þannig sé til dæmis hægt að halda utan um notkun togvíra og álag á hverjum tíma. Slík nákvæm skráning á togvíranotkun auðveldar útgerðum og skipstjórum að taka ákvörðun um endurnýjun vírs o.s.frv. og minnkar þannig líkur á skemmdum veiðarfærum og töpuðum veiðitíma.
Getur leitt til lækkunar olíukostnaðar
Fjóla Kristín segir söguleg gögn verða til um notkun veiðarfæra og aflaverðmæta með notkun kerfisins. Þau megi nýta fyrir framþróun veiðarfæra og fiskveiðirannsóknir. Gögn hafi þegar nýst Hafrannsóknastofnun við greiningar á beitingu veiðarfæra eftir svæðum. Þar má nefna þætti eins og togátak, hlerabil og víralengd. Framleiðendur veiðarfæra séu stöðugt að leitast við að þróa búnað með sem minnstri mótstöðu og munu þessi gögn geta nýst þeim. Það muni þá aftur mögulega leiða til lækkunar á olíukostnaði útgerða.
„Nú er komið að þeim tímapunkti að þróun búnaðarins er lokið, það er búið að prófa hann og keyra og næsta skref er að bjóða hann til sölu innanlands og til erlendra útgerða út um allan heim,“ segir Steingrímur.
„Fyrst horfum við til okkar viðskiptavina hjá Naust Marine og þar er um að ræða fjölda útgerða innlands sem erlendis. Í framhaldinu væri hægt að útfæra lausnina, þannig að hægt verði að tengja hana í skipum með kerfum frá öðrum en okkur,“ segir Fjóla Kristín.
Naust Marine og Trackwell eiga að stórum hluta sama markhóp sem eru útgerðir stærri togskipa út um allan heim. Helstu markaðsvæði eru lönd við N-Atlandshaf, í Evrópu og Ameríku og við vesturströnd Bandaríkjanna, sem er eitt stærsta markaðssvæði Naust Marine, og síðast en ekki síst í Rússlandi, sem er einn mest vaxandi markaður heims í sjávarútvegi.
Greinin birtist fyrst í Fiskifréttum, blaðamaður var Guðjón Guðmundsson.
Nánari upplýsingar um Optigear veitir
Fjóla Kristín Traustadóttir