03.desember 2019

Magnús og Bjarni Þór kaupa Naust Marine

Félag á vegum Magnúsar V. Snædal stjórnarformanns Naust Marine hf. og Bjarna Þórs Gunnlaugssonar framkvæmdastjóra hefur keypt meirihluta hlutafjár félagsins og eiga þeir félagar nú rúmlega 80% samtals.   Magnús hefur verið stjórnarformaður félagsins í tæp 7 ár og Bjarni Þór framkvæmdastjóri síðan 2007. Þeir horfa björtum augum til framtíðar og telja þetta 25 ára gamla fyrirtæki eiga mikla möguleika til vaxtar.         

Velta félagsins er áætluð um 1,5 milljarðar á þessu ári og er áætluð um 2,5 á því næsta. Dótturfélag á Spáni hefur vaxið mjög í kjölfar verkefna sem þar eru unnin fyrir og með Naust Marine á en um er að ræða stór verkefni fyrir bæði rússneskar og bandarískar útgerðir en þess má geta að félagið rekur einnig útibú í Seattle sem þjónustar þarlenda aðila.        

 „Framtíðin er rafdrifin“ „Við sjáum að auknar kröfur í umhverfismálum hafa nú veruleg áhrif á val rafknúins búnaðar umfram gömlu glussakerfin en það er skiljanlegt“ segir Bjarni Þór og bætir við að það séu nú víða í heiminum háar sektir við því að missa niður t.d. glussaolíu í höfnum.  „Þannig að fyrir utan að búnaður Naust Marine sé skilvirkari og hagkvæmari þá er líka verið að fá með þessu hreinna og betra umhverfi“.       

Naust Marine ehf. var stofnað árið 1993 með það að markmiði að þróa og markaðssetja búnað fyrir sjávarútveg og annan iðnað. Aðalverkefni fyrirtækisins hefur fram til þessa verið þróun og framleiðsla sjálfvirka togvindukerfisins ATW CatchControl (Automatic Trawl Winch) sem og hönnun og smíði á öllum helstu vindum og ýmsum búnaði fyrir fiskiskip.