31.ágúst 2020

Naust Marine gerir 800 milljón króna samning við RK Lenina

Viktor Gavrilov - RK Lenina

Nýlega skrifaði Naust Marine undir samning við útgerðarfélagið RK Lenina í Rússlandi um hönnun og smíði á öllum vindum, vindustjórnun og öðrum tengdum búnaði fyrir nýjasta skip félagsins, Viktor Gavrilov. 

Skipið verður stærsta fiskiskip sem smíðað hefur verið í Rússlandi sl. 30 ár. Um er að ræða skuttogara sem verður 121m á lengd, 21 metri að breidd og útbúinn fullkomnasta búnaði sem völ er á.   
 
Skipið er hannað af Wärtsilä og verður smíðað í Yantar skipasmíðastöðinni Kalíníngrad. Áætlað er að það verði fullbúið og tilbúið til afhendingar 2023. 
 
Heildarverðmæti samningsins er um 800 milljónir króna en verkefnið er eitt af fjölmörgum sem Naust Marine vinnur fyrir rússneskar útgerðir um þessar mundir. 

Naust Marine hefur verið leiðandi í hönnun rafmagnsvinda og stjórnbúnaðar undanfarna áratugi en búnaður frá félaginu er í um 200 skipum.  


Í skipinu verða meðal annars 50 vindur og stjórnkerfi frá Naust Marine: 

- ATW-togvindustjórnun 
- 3 togvindur 
- 2 kapalvindur 
- 4 netavindur 
- 35 aukavindur 
- 2 ankerisvindur og keðjustopparar    
- 4 löndunarbómur 
ásamt ísgálgum, blökkum, skuthliði, krönum og fl.   
 
Verkefnið er liður í stefnu rússneskra stjórnvalda um að renna styrkari stoðum undir sjávarútveg landsins og tryggja betur sjálfbærni veiða með því að hvetja til endurnýjunar og aukinnar tæknivæðingar innan greinarinnar.