01.júní 2021

Lausnir frá Naust Marine auka hagkvæmni fiskveiða


Þriðja togvindan eykur veiðigetu skips til muna

Naust Marine hefur í auknum mæli fengið þau verkefni að bæta þriðju togvindunni við í skip sem áður höfðu bara tvær vindur. Í dag verður varla sú nýsmíði þar sem ekki er gert ráð fyrir þriðju togvindunni.  Ástæðan er einföld, meiri veiði og hagkvæmni við veiðar, þar sem olíukostnaður eykst lítið í samanburði við aukna veiði. Nýlega var þriðju togvindunni bætt við í Akurey, Viðey og Karelia II. Í Akurey og Viðey var þar að auki bætt við tveimur grandaravindum í hvort skip sem gerir það að verkum að hægt er að hafa 3 troll tilbúin á dekki. Í þessum skipum var ekki gert ráð fyrir þriðju togvindunni við upphaflegu hönnun og smíði skipanna.  

Naust Marine hannaði einnig vindukerfi í tíu togara, 82 metra, fyrir Norebo en þeir eru nú í smíðum hjá Severnaya skipasmíðastöðinni í  St. Petersburg í Rússlandi. Ekki var gert ráð fyrir þriðju togvindunni í upprunalegri hönnun skipanna en kaupandinn ákvað í því tilfelli að bæta henni við á síðari stigum vegna þeirrar hagkvæmni sem af því hlýst.


Í skipunum Breka og Páli Pálssyni sem smíðaðir voru 2017 var gert ráð fyrir þriðju togvindunni frá upphafi og hefur það gefið mjög góða raun.

Naust Marine getur hannað og útfært lausnir fyrir flest alla togara þegar bæta skal við þriðju togvindunni og grandaraspilum ef pláss leyfir. En með því verður skipið töluvert afkastameira.


Fjórða vindan að skila góðum árangri

Naust Marine setti niður fjórðu togvinduna í norska skipið Remøy, sem stundar rækju- og þorskveiðar í Barentshafi, sem gerir því kleift að draga 3 troll samtímis. Nú er u.þ.b. ár síðan vindunni ásamt stjórn- og hugbúnaði var komið fyrir um borð í skipinu og hefur búnaðurinn reynst vel og skipstjóri, áhöfn og útgerð eru mjög ánægð með breytingarnar. 

Naust Marine hefur mikinn metnað fyrir því að búnaður sem fyrirtækið framleiðir sé skilvirkur, hagkvæmur og ekki síst umhverfisvænn.  Fram undan eru spennandi ár hjá Naust Marine og tilhlökkun til þess að vinna áfram með frábæru fólki sem hefur metnað til að gera betur í íslenskum og erlendum sjávarútvegi.


Naust Marine hefur verið leiðandi í rafdrifnum vindukerfum í hátt í 30 ár.
Naust Marine hefur hannað og framleitt sjálfvirkan stjórnbúnað fyrir togvindur undir nafninu ATW í næstum 30 ár. Í seinni tíð hóf fyrirtækið einnig framleiðslu á vindum undir eigin nafni, ásamt því að framleiða alla stjórnun fyrir bæði tog- og aukavindur. Fyrirtækið hefur selt vindur, vindukerfi og stjórnbúnað í allt að 200 skip sem veiða nú um heim allan og árlega bætast ný skip við í þann hóp.  

Naust Marine leitar stöðugt nýrra lausna sem aukið geta veiðigetu skipa með litlum tilkostnaði. Þannig hefur fyrirtækið í gegnum árin bætt við mörgum nýjungum sem tengjast bæði vél- og hugbúnaði.