Naust Marine hefur í nánu samstarfi við útgerðarfyrirtækið Armadora Pereira og tæknideild skipasmíðastöðvarinnar Nodosa hannað heildarlausn fyrir nýjan togara sem nú er smíðum.
Skipið, sem er í eigu Orion Fishing Company, verður 85 metrar að lengd og mun stunda veiðar á smokkfiski og öðrum fiski á fiskimiðum Falklandseyja.
Vindurnar eru hannaðar og framleiddar hjá Naust Marine á Spáni og verða afhentar ásamt öðrum þilfarsbúnaði og ATW togvindustjórnun sem mun hámarka veiðigetu skipsins.
Orion Fishing Company og Naust Marine, leggja mikla áherslu á orkusparnað í hönnun sinni, með minni eldsneytisnotkun og lágmörkun umhverfisáhrifa sem mun stuðla að hagræðingu í rekstri. Horft er til búnaðarins sem settur var um borð fyrir rúmu ári síðan í spænska togarann Igueldo, en togaranum hefur einmitt gengið mjög vel á veiðum við Falklandseyjar.
Naust Marine mun afhenda allan búnað í lok árs 2023 en áætlað er að togarinn fari á veiðar snemma árs 2025.